Connect with us

Innlent

,,Einn kapítalisti er alltaf þúsund sinnum meira virði og mikilvægari en vinnuaflið”

Sett inn:

þann

Láglaunakonan og Séra Kapítalisti eða smá um sannleikann um veröldina

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar um kjaramál

,,Þótt saga Wow sé sennilega að fá sorglegan endi er ekki þar með sagt að stjórnendur og þá sérstaklega stofnandinn sjálfur eigi að læðast með veggjum. Skúli Mogensen hefur lagt allt undir í ævintýrið og átt stóran þátt í íslenska ferðamannavorinu. Ávinningurinn af því er varanlegur þótt mögulega muni hægjast á því um stund. Þeir sem tefla djarft geta uppskorið ríkulega en líka lent illa í því. Samfélagið þarf á slíku fólki að halda.”

Þetta segir í leiðara Fréttablaðsins í dag. Nokkrum blaðsíðum fyrr má lesa frétt um efnahagslegar afleiðingar þess að WOW hverfi af flugmarkaði; mikill samdráttur og mögulegur atvinnumissir fyrir þúsundir.

Þegar ég las frétt á Vísi í gær þar sem hann Árni Valur Sólonsson, eigandi City Park hótelsins, bregst við fullyrðingum okkar í Eflingu um að hann sé ótíndur og forhertur verkfallsbrjótur flissaði ég smá. Ég biðst auðvitað mikillar og auðmjúkrar afsökunnar á því, veit vel að fliss og hlátur kvenna er ekkert grín í íslensku samfélagi og margir karlar upplifa mikil ónot þegar svoleiðis gerist. En flissið koma bara sjálft þegar ég hugsaði að þegar Árni liti í spegil sæi hann Randíska hetju, skapara, kannski ekki alveg himins og jarðar, en Atlas engu að síður, skapara og niðuleggjara, eiganda og meg-anda, undirstöðuna og Uppsprettuna.

Ég hugsaði á meðan ég flissaði að ég ætti kannski að skrifa opið bréf og hvetja Árna og aðra stjóra til að leggja niður störf í þeim tilgangi að sýna fram á grundvallarmikilvægi sitt og til að knýja á um að fólkið í verkfalli fengi skýr skilaboð frá samfélaginu um að nú væri nóg komið; hér færi allt á hliðina ef að hótelstjórnarnir væru ekki að stjórast!
(Árni Sólonsson: „Hann [verkfallsvörðurinn] sagðist eiga störfin hérna. Ég hélt nú ekki og sagðist eiga þau sjálfur. Ég skapaði þau og sá sem getur lagt þau niður, hann á þau. Ég get lagt störfin niður en ekki Efling og þar af leiðandi hlýt ég að eiga störfin.“)

En þegar ég las leiðara Fréttablaðsins í morgun hugsaði ég að fleirum en mér hefðu verið Randísk ofurmenni hugleikin í gær og sum væru ekkert að grína; sum sjá einfaldlega alltaf í kapítalistunum dýrðina og sigurinn; menn tefla djarft og þúsundir missa vinnu en efnhagsleg niðursveifla er á endanum mögulega ekkert til að verða döpur yfir, þeir skapa uppsveifluna og þeir sem skapa, þeir eins og öll vita, eyðileggja líka og í niðursveiflunni búa glæðurnar sem munu kynda næsta sköpunarbál ofurmennanna. Mikið er bálið fallegt og heitt.

Einn kapítalisti versus þúsundir launafólks, einn kapítalisti versus þau sem berjast fyrir hagsmunum láglaunafólks. Útkoman er á hreinu; einn kapítalisti er alltaf þúsund sinnum meira virði og mikilvægari en vinnuaflið. Vegna þess að án kapítalistans er vinnuaflið ekkert, í mesta lagi bara til vandræða. Það er ekkert jákvætt við baráttu vinnuaflsins, ekkert jákvætt við að borga fólki mannsæmandi laun fyrir unna vinnu, ekkert jákvætt við að láglaunafólk geti kannski dregið andann aðeins léttar og slakað örlítið á; þvert á móti, þessu fylgir ekkert nema samfélagslegt böl og katastrófa en fegurð kapítalistans er á endanum aldrei meiri og óumdeilanlegri en akkúrat þegar hann sýnir grundvallarmikilvægi sitt í efnahagskerfinu með því að reyna að leggja það í rúst.

Þessvegna skulum við í dag, í það minnsta, tala um Séra Kapítalista; til að sýna að við sjáum og viðurkennum að þau sem dýrka hann aðhyllast trúarbrögð, til að sýna að við sjáum að þeir eiga það og mega það og að á endanum eru áföllin sem ganga yfir okkur af þeirra völdum ekkert nema enn einn kaflinn í trúarritinu um Ofurmennið. Og það er sko ekkert fyndið við það.

Athugasemndir
Lesa meira