Connect with us

Aðsendar greinar

,,Nú á að fara að framleiða fátæklinga í stærri stíl en áður á Íslandi – Leiguþræla eins og á síðustu öldum”

Sett inn:

þann

Viðskiptabankarnir þrír eru búnir að skila hagnaði um eða yfir 800 milljörðum frá hruni. En eins og allur almenningur veit, þá báru viðskiptabankarnir stóra ábyrgð á þeim efnahagslegu hörmungum sem íslenskur almenningur þurfti svo sannarlega að blæða fyrir

,,Niðurstaðan hjá parinu þegar það er orðið 50 ára árið 2039 og búið að leigja í 20 ár er sú að það á ekki neitt nema kvittanir upp á 40 til 50 milljónir, fyrir leigugreiðslum síðastlinu 20 árin sem að það hefur greitt til leigusalans”

: Virðingarfyllst, Jón Guðmundsson frkv.stj.

Bankarnir hafa greitt út arð til eigenda sinna upp á marga milljarða króna enda skilað hagnaði upp á 800 milljarða frá hruni. Ríkið hefur átt bankana frá hruni en nýbúið er að klúðra sölu eða einkavæðingu eða hvað menn vilja kalla það á Arion banka. Hefði ekki verið í lagi að ríkið hefði minnkað vaxtaokrið á fjölskyldur og fyrirtæki í landinu? 

Það er ljóst að ofurgróði er af rekstri bankanna á Íslandi ár eftir ár en hvernig standa bankar á Íslandi gagnvart bönkum í Evrópu? Nú er spurt hverjir “eigi að fá” Landsbankann og Íslandsbanka og fólk óttast hið versta enda er þjóðin enn með áfallastreituröskun vegna þess stjórnarfars sem hefur verið í landinu undanfarna áratugi og er enn. 

Nú hefur bankaskattur verið lækkaður af ríkisstjórn Vinstri Grænna um heil 63%, því að það verður að hlúa vel að bönkunum eins og alltaf og alla tíð, skítt með fólkið, öryrkja og gamalmenni og fátæklinga, VG er ekki minnka álögurnar þar. Nei, aðal atriðið er að minnka skatta á ofurgróða bankanna upp á 800 milljarða, sem að þeir hafa fengið með okurlánum, um heil 63% og hver skildi ástæðan vera? Jú ætli sé ekki verið að plotta með að einkavinavæða þá aftur og þá er auðvitað best að þeir borgi sem minnst til samfélagsins og allra helst ekkert.

Og auðvitað verður útgerðin líka að fá nokkra milljara gefins, ekki má hún heldur borga of mikið í sameiginlega sjóði enda vafin inn í bómull eins og bankarnir og Elítan öll, af Vinstri græna Sjálfstæðisframsóknarflokknum.

En lækkun á greiðslum til öryrkja, gamalmenna og þeirra sem að minna meiga sín, það er hið besta mál þegar að Katrín Jakobsdóttir er æðsti ábyrgðarmaður ríkisstjórnar Íslands. Þeir hafa hvort sem er alltaf verið sviknir sem og láglaunafólk og nú er m.a.s. búið að búa til sérstakt forrit, ”tekjusagan.is” sem er ein hörmungarsaga sem að sýnir svart á hvítu að almúginn hefur alltaf haft það skítt og að engar breytinga séu í augnsýn um að það fari neitt að breytast. “Svona hefur þetta bara alltaf verið og verður þannig áfram” hefði verið betra nafn á forritið.

En auðvitað þarf ekkert forrit til þess að rifja upp þær hörmunar sem að láglaunafólk, öryrkjar, gamalmenni ofl. hafa þurft að þola á Íslandi. Það man það alveg og er minnt á það daglega, án þess að kveikja á einhverju forriti, hvernig það er að skrimta. Að eiga ekki fyrir mat, húsnæði, afborgunum, jólagjöfum handa sínum nánustu, bíl eða eldsneyti. Það fólk þarf engin forrit til þess að muna.

Enginn reiknar með því að við fáum lægri vexti, þó að bankaskattar séu nánast þurrkaðir út eða betri kjör. Ekki við sem að höfum lifað í íslensku óstöðugu óðaverðbólgu hagkerfi í góðan tíma, þar sem að ónýtur gjaldmiðill spilar stórt hlutverk og regluverkið allt ásamt einangrunarstefnunni. Við reiknum ekki með neinu. Það mun ekkert gerast og hér mun ekkert breytast, ekki nema fyrir Elítuna og ég heyrði að Sjálfstæðisflokkurinn og VG ætluðu að sameinast, sel það ekki dýrara en ég keypti það. En mér kæmi það ekki á óvart. Það fer vel á með þeim og ekki hægt að greina á milli, hvor er meiri harðlínu hægriflokkur.

Það nýjasta í dag er það, að nú á að fara að framleiða fátæklinga í stærri stíl en áður á Íslandi, leiguþræla eins og á síðustu öldum. En þekktar eru fátækra- og bankaþræla gildrurnar sem að eru innbyggðar í íslenska hagkerfinu og varðar af stjórnvöldum. Nú á sem sagt að fara að útbúa leigufélög þar sem að ungt fólk getur leigt sér húsnæði í stað þess að kaupa og þá er alveg öruggt að það eignast aldrei neitt og verður fast í enn einni fátækragildrunni. Verði leiguþrælar eins og á síðustu öldum, þegar að vesalingar bjuggu í hjáleigum og þræluðu fyrir Elítuna. Þá var hjáleigan oft kennd við bæinn þar sem að landeigandinn bjó og sá sem að bjó í húsnæðinu á hjáleigunni, var leiguþræll landeigandans. Við erum að fara í 200 ára afturför og hneppa börnin okkar í þrælaánauð og allir eru bara rosa happý með það. Þannig lýsir hamingjan sér hjá þjóð á einangraðri eyju með örmynt, í 100% vanþróuðu hagkerfi og húsnæðismarkaði í bananalýðveldi með verðtryggða okurvexti.

Dæmi a). Ef við tökum t.d. dæmi um 30 ára gamalt par sem að er á íslenskum leigumarkaði og borgar leigu til “óhagnaðardrifnis leigufélags”, segjum bara 150 til 200.000 krónur á mánuði af eign sem að kostar 60 milljónir. (Leiguverðið getur aldrei verið lægra og líklega þarf parið að borga miklu hærri leigu, vegna þess að vextir af íslenskum okurlánum munu neyða óhagnaðrdifna leigufélagið til þess að vera með okur leigu.)

Niðurstaðan hjá parinu þegar það er orðið 50 ára árið 2039 og búið að leigja í 20 ár er sú að það á ekki neitt nema kvittanir upp á 40 til 50 milljónir, fyrir leigugreiðslum síðastlinu 20 árin sem að það hefur greitt til leigusalans. Leigusalinn á eignina að loknu leigutímabilinu, en þau ekki neitt, ekkert. Og þetta eru allir svo rosalega ánægðir með að það á bara, liggur við, að kvítta upp á kjarasamninga og skála af tilefninu.

Dæmi b). Jafn gamalt par á hinum Norðurlöndunum eða bara t.d. í Evrópu eða jafnvel í annari heimsálfu, þar sem að fólk fær eðlileg vaxtakjör -(Já það er eðlilegt hjá öllum þjóðum almennt að vextir séu eðlilegir), og fasteignakaup fyrir fjölskylduna er ekki áhættufjárfesting eins og á Íslandi. Greiðir í 20 ár af sínu húsnæði sem að kostaði líka 60 milljónir og afborganirnar á mánuði eru einhverjum tugum prósenta lægri en leigugreiðslan hjá parinu á Íslandi.

Þegar að þau svo fagna 50 ára afmæli sínu með veglegum hætti, er eignin þeirra 60 milljóna króna virði og þau eiga hana ennþá árið 2039, SKULDLAUSA, (Lán lækka í öðrum löndum þegar greitt er af þeim) á meðan að íslenska parið er enn fast í fátækragildru á leigumarkaði og á ekki neitt nema kvittanir upp á tugmilljóna tap. Það eyddi starfsævinni og bestu árunum sínum, sem leiguþrælar og eiga ekkert.

Þetta virðist vera draumurinn í dag á Íslandi sem að allir dásama. Mér finnst þetta vera martröð og hryllingur fyrir ungt fólk, en hið besta mál fyrir leigusalana og Elítuna! Enda kæmi þessi leiguliða þrælaánauð aldrei til greina, nema með hennar samþykki.

Nú er alltaf talað um að við verðum að vera sambærileg við löndin sem að við berum okkur við en það er aldrei að ganga upp eins og vaxtatafla hér að neðan sýnir og hefur aldrei gerst frá landnámi. Því að Ísland er í hópi þjóða sem að við mundum aldrei vilja láta bera okkur saman við og á engan séns á meðal siðaðra þjóða þegar að kemur að fjármálum. Engan!

Þegar kemur að lánum á peningum til íslendinga, þá erum við að fá svipuð kjör og hið stríðhjáða land, Úkraína, Belarus, Tyrkland, Rússland, og Moldóva en hæstu vextir eru lagðir á lántakendur í þessum löndum og er Ísland í þessum hópi. Tafla er hér að neðan.

Ekki er hægt að miða við verðtryggð lán á Íslandi, því að það veit enginn hverjir raunverulegu vextirnir verða að lokum. Verðtryggð lán eru hvergi til í heiminum nema á Íslandi. Verðtrygging er svikamylla fjármagnseigenda og er bara til á Íslandi og önnur lönd eiga ekki einu sinni til orðið ,,Verðtrygging” í orðaforða eða orðabókum. Ísland er eina vanþróaða ríki veraldar sem notar þessa svikamyllu á þjóð sína.

Og hefur það sýnt sig í kreppum og verðbólgu að það er t.d. áhættufjárfesting á Íslandi að kaupa sér fasteign fyrir fjölskylduna og hefur verið þannig í áratugi og verður þannig áfram í boði Vinstri græna Sjálfstæðisframsóknarflokksins.

Minnisstæð eru húsnæðislán íslensku bankanna sem voru tengd erlendri mynt, og hækkuðu þau lán um meira en helming í sumum tilfellum, með tilheyrandi eignaupptöku, hruni og landflótta tugþúsunda íslendinga eftir viðskiptin.

Boðin voru upp heimili tugþúsunda og fjölskyldur stóðu uppi eignalausar og gjaldþrota á meðan að Vinstri græni Sjálfstæðisframsóknarflokkurinn hamaðist við að afskrifa skuldirnar hjá Elítunni og sumir fengu tugi milljarða afskrifaða og skuldir strokaðar út úr bankakerfinu á meðan að venjulegt fólk var hundelt með sínar skuldir og gert gjaldþrota.

Heimili landsmanna voru seld vogunarsjóðum á 1 til 10% af raunverulegu fasteignaverði

Skjaldborg var slegin um bankana þá, eins og núna og suma innmúraða sem að skulduðu bönkunum milljarða og milljarðatugi en það má auðvitað ekki ræða það því á þeim hluta hrunasögunnar, er lögbann. Alþingi læsti svo öll sönnunargögn inn í hvelfingu sem má opna eftir rúma öld um það sem að þjóðin má ekki vita. Svo eru alþingismenn að grenja yfir því að þjóðin treysti þeim alls ekki. Ja, hví skyldi það nú vera?

Um þetta leiti átti að byggja hér á landi alþjóðlega fjármálamiðstöð, þar sem að margir íslendingar á þeim tíma, töldu sig geta kennt öðrum þjóðum og leiðbeint um fjármál og bankarekstur ofl. því tengdu. Bankarnir fóru allir á hausinn á Íslandi, þrátt fyrir að við áttum svona rosalega flottan mannauð og snillinga, að eigin áliti. Ísland er eitt vanþróaðasta ríki veraldar, þegar að kemur að fjármálakerfum í heiminum og þessi hugmynd, bara að hún skildi hafa komið upp, sýnir hvað íslenskir aðilar í banka- og fjármálageiranum eru heimskir.

Þegar verið er að bera saman launakjör landa, þá er oftast aðeins litið til mánaðarlauna milli landa í krónum af íslendingum, þar sem að íslendingar umreikna yfir í þennan gjaldmiðil sem þeir erum með, ein þjóða. Þá gleymist alltaf að taka inn í lífskjör eins og afborganir af húsnæði, bílum og öðrum lánum. Þar er greiðslubyrgði íslendinga út í hött vegna hárra vaxta. Bara núna á mánuði lækkaði krónan um 15% gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Það þýðir að allt sem flutt er inn, hækkar um 15% og við fáum þá 15% minna fyrir launin okkar. Á einum mánuði fáum við 15% launalækkun í boði ónýtrar krónu og vanþróaðs hagkerfis.

Launahækkanir á Íslandi eru óverðtryggðar og hafa alltaf étist upp í verðbólgum og gengislækkunum, það gerist líka núna. Það er líka galið að semja um hækkanir þrjú ár fram í tímann þegar að gengið fellur t.d. á mánuði um 15%. Enda var Kjararáð ekkert að hækka þrjú ár fram í tímann, þeim datt það ekki í hug enda vita þeir að það er bull. Þar var Elítan hækkuð um tugi og hundruð prósent fram og afturvirkt samdægurs. Elítan veit að það er ekkert hægt og hefur aldrei verið hægt að gera nein langtíma plön með þetta ónýta fjármálakerfi enda hannaði hún það.

Lán lækka í þeim löndum sem við berum okkur saman við þegar af þeim er greitt eins og eðlilegt er. Nema á Íslandi þar sem að lánin hafa alltaf hækkað við hverja afborgun, eins og gerist hjá ómenntuðum og siðlausum okurlánurum sem að stunda oftast glæpastarfsemi sína í skuggalegum glæpahverfum, á götunni. Á Íslandi er okurlánastarfsemin stunduð fyrir opnum tjöldum og vel varin af innmúruðum stjórnvöldum og eftirlitsaðilum!

Það er ljóst að þegar að verið er að semja um kaup og kjör, þarf einnig að taka með í reikninginn vaxtakostnað, matvöru- bifreiða og eldsneytisverð, tryggingar og margt annað til þess að raunhæfur samanburður náist. Það þarf að byrja á réttum enda, og ákveða svo hver krónutalan á að vera í launum í íslenskri ótryggðri örmynt. Ísland er t.d. með hæsta bensínverð í heimi og matvöruverð er miklu hærra en í öllum öðrum löndum og svona mætti lengi telja varðandi hátt vöruverð á öllum sviðum á samtryggingarmarkaðnum á eyjunni. Leiguverð á Íslandi er líka út úr kortinu og í engu samræmi við laun eða nokkurn skapaðan hlut og leigufélög geta kúgað fólk undir verndarvæng stjórnmálaflokka. Sem að flestir leigjendur kjósa.

Okrað er á flestu þegar að kemur að neytendum og launahækkanir ekki í neinu samhengi við okrið, engu. Nema hjá forstjórum sem að stýra okrinu gegn þjóðinni og svo Elítan sem fær tuga prósenta hækkanir árlega á ofurlaun, fram og afturvirkt auk bílastyrkja og allskonar sporstla upp á milljónir árlega. Þar er ekki verið að tala um neina 3% launahækkun eða eitthvað mjattl í 3 ár sem að ést upp í verðbólgunni. Nei, þar eru launin hækkuð í tugum og hundruðum prósenta samdægurs en ekki deilt á mörg ár fram í tímann.
Samtryggingin er víða og sumir vilja halda því fram að samtryggingin hafi einnig verið á milli trúnaðarmanna launþega og launagreiðenda. Það er alla vega mikill titringur í þjóðfélaginu og hallarbyltingar víða og talað um gul vesti. Einhverjir virðast hafa áttað sig á hlutunum, vonandi.

Hér sjáum við íbúðarlán sem er verið að bjóða fólki á Íslandi. Lán upp á 25.5 milljónir endar hæst í 80.340.841 krónum. Miðað er við þessi kjör ef að lántakinn hefur einnig greitt 14,500,000 krónur út í húsnæðinu. Það er einnig trygging fyrir bankann þegar og ef, allt fer á versta veg, t.d. í næsta hruni. Þá eignast bankinn húsnæðið af bankaþrælnum á uppboði, einnig þær 14.500.000 kr. sem að hann greiddi út og á svo líka allar afborganirnar og okurvextina allan lánstímann líka. 2007, munið? Og selur svo öðrum áhættufjárfestinguna með stórum hagnaði.

Þetta er verið að bjóða íslendingum upp á. Ungt fólk sem hefur intenet og er sæmilega gefið, mun aldrei láta bjóða sér svona rugl eða skammarlega lág laun miðað við framfærslukostnað.
Það flýr óregluna á íslenskum okurmarkaði og loftbólu, húsnæðis, ponsý markaði sem á eftir að springa og kemur sér upp húsnæði í öðrum löndum fyrir brot af kostnaði á Íslandi. Þar sem að kaup á fasteign til eigin nota er ekki áhættufjárfesting eins og hún hefur verið á Íslandi kynslóð eftir kynslóð.

Það er ekki að undra að bankarnir græði á okurvöxtum og stjórnendur eru hvattir áfram í að okra á fólki og fá stóra bónusa upp á tugi og hundruði milljóna í staðinn. Böðlarnir eru vel launaðir og það þarf enga snillinga til að reka okurbúllur á einangraðri eyju norður i hafi þar sem að samkeppni og eðlileg viðskipti geta ekki átt sér stað þar sem að þjóðin er hlekkjuð við ónýtan gjaldmiðil og regluverk sem engin treystir.

Þannig er þjóðinni haldið í einangrun frá eðlilegum kjörum. Hættið að láta ljúga að ykkur með fake news um hvað allt sé svo frábært á þessari einangruðu eyju, þar sem að hamingjusömustu eyjaskeggjar veraldar lifa, uppdópaðir af gleðipillum en við eigum jú líka árlega heimsmet í notkun á þunglyndislyfjum. Hvernig ætli standi á því, ár eftir ár?

Við þrælarnir hlúum vel að þessu 1% á meðan að fleiri þúsund börn lifa við fátækt á Íslandi. Hvað er að þjóðinni að láta kúga sig og sína svona endalaust, kynslóð eftir kynslóð?

Og m.a.s. nú árið 2019 þegar að heimurinn hefur minnkað og við getum kveikt á tölvunni og séð hvernig aðrar þjóðir hafa það, í sambandi við vaxtakjör, verð á matvöru, eldsneyti, húsnæði, laun og afkomu ofl.ofl. þá er eins og að þjóðin sé skipuð heiladauðum þrælum sem að bugta sig og beygja fyrir Elítunni sem að heldur utan um 95% af eignum okkar sem þjóðar. Kvótann, fjármagnið og öll völd og svo kjósa þrælarnir böðlana, aftur og aftur, kynslóð eftir kynslóð.

Albert Ein­stein skil­greindi hug­takið heimsku á þessa leið : ,,Að gera það sama aftur og aft­ur, en reikna með annarri nið­ur­stöð­u.” – Mér dettur þessi gamla kenning meistarans alltaf í hug þegar ég sé fólk kjósa sömu flokkana aftur og aftur.

Að færa böðlinum snöruna, auðmjúklega, kynslóð eftir kynslóð er ekkert annað en séríslensk heimska og koma þar þrælagenin örugglega við sögu og er sérstakt rannsóknarefni fyrir íslenska erfðagreiningu.

Það eru engin geimvísindi að skila tugum og hundruðum af milljörðum í hagnað með vaxtaokri á fólk á Íslandi. Það þarf enga snillinga til þess, það þarf hinsvegar samviskulaust fólk til verka og sér gjaldmiðil og regluverk, til þess að halda landi og þjóð í hlekkjum fákeppni fyrir fáa útvalda, sérvalda og innmúraða, á kostnað heildarinnar. Þetta okurkerfi er mannana verk.

Væri það ekki hagsælla að geta tekið ÓVERÐTRYGGT  lán með 0% til 2% vöxtum eins og hægt er að fá í nágrannalöndunum og helmingi ódýrari matarkörfu ofl. ofl. ofl?

Fyrir hverja er þetta kerfi?   Hér hefur ekkert breyst í aldir

Land Vextir  Mán:
Úkraina 17.00 Mar/18
Belarus 10.50 Feb/18
Tyrkland 8.00 Mar/18
Rússland 7.50 Feb/18
Moldova 6.50 Mar/18
Ísland 6.00+ Mar/18
Bosnia and Herzegovina 3.88 Dec/17
Makedónia 3.25 Feb/18
Serbia 3.25 Mar/18
Króatia 2.50 Feb/18
Romania 2.25 Feb/18
Pólland 1.50 Mar/18
Albania 1.25 Feb/18
Ungverjaland 0.90 Feb/18
Tékkland 0.75 Feb/18
Noregur 0.50 Mar/18
Bretland 0.50 Feb/18
Austurríki 0.00 Mar/18
Belgía 0.00 Mar/18
Búlgaria 0.00 Mar/18
Kýpur 0.00 Mar/18
Eistland 0.00 Mar/18
Evru svæðið 0.00 Mar/18
Finnland 0.00 Mar/18
Frakkland 0.00 Mar/18
Þýskaland 0.00 Mar/18
Grikkland 0.00 Mar/18
Írland 0.00 Mar/18
Ítalía 0.00 Mar/18
Latvia 0.00 Mar/18
Litháen 0.00 Mar/18
Luxemborg 0.00 Mar/18
Malta 0.00 Mar/18
Holland 0.00 Mar/18
Portúgal 0.00 Mar/18
Slovakia 0.00 Mar/18
Slóvenia 0.00 Mar/18
Spánn 0.00 Mar/18
Svíþjóð -0.50 Feb/18
Danmörk -0.65 Feb/18
Swiss -0.75 Mar/18

Þingmenn Flokks fólksins og Miðflokksins, þeir einu á Alþingi sem leggja fram frumvarp um að afnema verðtrygginguna


Hér er svo önnur grein eftir mig um ónýtt kvótakerfi sem er á Íslandi, en mér er umhugað um þjóðmál. Virðingarfyllst, Jón Guðmundsson frkv.stj.

Ónýtt íslenskt kvótakerfi – Bankar með ónýt veð í kvóta og byggðir lagðar í rúst

,,Taka þarf á vaxtaofbeldi gagnvart íslendingum!”

Athugasemndir
Lesa meira

Fréttatíminn © 2018