Connect with us

Fréttir

Lægstu kauptaxtar Starfsgreinasambandsfélaganna eru í dag kr. 266.000 á mánuði

Sett inn:

þann

Lágmarkslaun og kauptaxtar!

AFL Starfsgreinafélag birti um helgina auglýsinu um einn þátt í kröfugerð félaganna innan SGS – þ.e. að lægstu kauptaxtar myndu skila kr. 300.000 í umslagið eftir að skattar hafa verið greiddir. Í dag myndi lægsti kauptaxti skila kr. 212.000 eftir skatta og lágmarkslaun myndu skila kr. 232.000.

Auglýsingin birtist á Facebook og í kjölfarið hafa orðið fjörugar umræður á síðu félagsins og fólki almennt finnst kröfugerðin of hófstillt og einnig gætir nokkurs misskinings um tilurð kröfugerðar félaganna.

Lægstu kauptaxtar Starfsgreinasambandsfélaganna eru í dag upp á kr. 266.000 á mánuði – og þó svo að mönnum finnist það til skammar í dag, voru samningar um þá launatölu samþykktir af félagsmönnum allra aðildarfélga með verulegum atkvæðamun 2015. Árið 2014 var lægsti kauptaxti um kr. 201.000

Greiddir eru kaupaukar og bónusar á mörg starfa sem Starfsgreinasambandsfélögin semja um og því eru heildardagvinnulaun oft mun hærri en þessar tölur segja til um. Til að jafna stöðu þeirra sem engra kaupauka njóta hefur því einnig verið samið um „lágmarkslaunatryggingu“ sem í dag er kr. 300.000. Það þýðir að fyrir fulla vinnu, 173,33 tíma eiga heildarlaun að ná að lágmarki kr. 300.000. Ef starfsmaður er á strípuðum 266.000 kr. kauptaxta og fær engar aðrar launagreiðslur – ber launagreiðanda því að borga kr. 34.000 um hver mánaðarmót sem „tekjutryggingu“.

Síðustu ár eða allt frá því fyrir efnahagshrun hafa kjarasamningar Starfsgreinasambandsfélaganna einkennst af krónutöluhækkunum þrátt fyrir einkennilega síbylju fólks um prósentuhækkanir. Í júli 2006 hækkuðu t.d. allir taxtar um kr. 15.000 – þ.e. sama hækkun kom á alla launataxta. Þetta Þýðir að nánast sama krónubil er á milli allra taxta nú og var fyrir meira en 10 árum þannig að með því að krónan er verðminni – hefur launataflan því þjappast verulega saman. Þannig var munur á lægsta og efsta taxta Starfsgreinasambandsins um 32% 2008 en er í dag 16,5%.

Jákvæðu hliðarnar við þessa þróun er að félögin eru að leggja aukna áherslu á kjör þeirra sem lægst hafa launin og „launajafnrétti“ eykst.

Neikvæðu hliðarnar við þessa þróun er að þetta gildir aðeins innan Starfsgreinsambandsins og á aðeins við um verkafólk. Aðrir launþegahópar hafa ekki farið þessa leið og taka oftast hæstu mögulegu hækkun sem samið er um fyrir verkafólk og breyta yfir í prósentuhækkun og gera að sinni kröfugerð. Þannig eykst sífellt launamunur milli verkafólks og annarra hópa.

Ef svo heldur áfram sem horfir – endum við með einn „verkamannataxta – því bil milli launaflokka fer sífellt minnkandi. T.d. mátti 2007 kaupa ca 20 lítra af mjólk fyrir krónutölumun á milli launaflokka en í dag eru það um 10 lítrar af nýmjólk. Hvati fólks til að sækja t.d. námskeið og afla sér réttinda er því mun minni í dag en fyrir 10 árum síðan.

Þess má þó geta að lítill hluti verkafólks er á strípuðum töxtum og skv. viðamikilli launakönnun AFLs Starfsgreinafélags voru félagsmenn með að meðaltali kr. 421.000, (miðgildi 378.000) síðastliðinn september. Lægstu meðallaun voru meðal skólaliða, stuðningsfulltrúa og þjálfara – kr. 333.000 pr mánuð.

Athugasemndir
Lesa meira