Connect with us

Fréttir

Sigmundur Davíð og Anna Kolbrún ræða Klaustursmálið

Sett inn:

þann

Anna Kolbrún Árnadóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru gestir í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Í upphafi viðtalsins sagði Sigmundur Davíð m.a. ,,Menn geta notað mistök til þess að bæta sig og svo ég noti myndlíkingu, þá er hægt að segja að þeir sem að fá á sig sjálfsmark í fótbolta, hafa mestan hvatann til þess að bæta sig. Þetta er gríðarlega sterkur hvati sem við höfum núna til að bæta okkur, fara yfir liðinn veg og bæta okkur.

Við höfum einsett okkur þingmennirnir að láta þetta verða til þess að við verðum til fyrirmyndar í allri framkomu.” Þá sagði Sigmundur að allt þetta ferli hefði verið eins og tilfinningarússibani, fyrst hefði hann orðið reiður yfir því að einhver hefði verið að laumast með upptökutæki til þess að taka upp ólöglega einkasamtöl og svo hefðu aðrar tilfinningar tekið við, þegar að hann fór að skoða málið betur.

Í gær rifjaði Sigmundur Davíð það upp með konu sinni að þau hefðu verið á fundi með gamla flokknum sínum (Framsóknarflokknum), þau hefðu setið á fundi á Hótel Sögu á sitthvoru borðinu og að Önnu Sigurlaugu hefði verið stórlega misboðin sú orðræða sem að þar var viðhöfð og hún hefði farið fram í anddyri og setið þar ein. Þá hefði sameiginleg vinkona þeirra náð í Sigmund og þau bæði yfirgefið veisluna.

Sigmundur sagðist oft hafa persónulega orðið fyrir barðinu á illum tungum og m.a. hefði hann verið kallaður ljótur og feitur, geðveikur, einræðisherra og verið líkt við fjöldamorðingja. Sagðir hefðu verið ótrúlega rætnir hlutir í einkasamtölum í aðdraganda flokksþing ofl. Einnig hefði verið hringt um allt kjördæmið hans og sagðar upplognar sögur um hann. Hann vissi jafnframt til þess að um hann hefðu verið sagðir óviðeigandi brandarar í öðrum flokkum en það væri í raun eðli þessa vinnustaðar sem að hann ynni á, að svona gæti gerst.

Um Gunnar Braga og Bergþór Ólason sagði Sigmundur Davíð, að þeir væru að vinna í sínum málum og vinna í sjálfum sér og að hann gæfi þeim og fjölskyldum þeirra svigrúm til þess. Þeir væru báðir góðir menn og að öl væri annar maður og ummæli þeirra hefðu verið úr karakter fyrir þá og að hann dæmdi ekki innræti þeirra út frá þeim.

Anna Kolbrún sagðist hafa alla tíð unnið fyrir öryrkja og væri sjálf öryrki, og að hún hefði aldrei talað illa um fatlaða. Jafnframt greinir Anna Kolbrún frá því að hún hafi greinst með krabbamein í brjósti árið 2011. Það hefur nú dreift sér um líkamann og er komið í kringum hjartað, í eitla, kviðarhol og lífhimnu.

Jafnframt lýsir hún því að hún væri í raun ekki að standa með sjálfri sér og konum yfirleitt ef að hún færi að segja af sér vegna ummæla annara.

Sigmundur Davíð sagði að það væri hefð væri fyrir því að menn færu á skrifstofur þingsins, kaffihús eða eins og í þessu tilfelli á vínveitingahús, þegar að vaktaskipti væru í þingsal. Hann sagðist hafa sest niður á slíkum stöðum með fólki úr ýmsum flokkum og að flokksmenn Miðflokksins ætluðu að endurskoða þessa venju og jafnvel þyrftu allir þingmenn á Alþingi að endurskoða málið.  Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni á  VÍSIR.IS

 

Athugasemndir
Lesa meira

Fréttatíminn © 2018