Connect with us

Menning, Ferðalög, Viðtöl og Fleira

Áætla að um 300 börn taki þátt í réttindagöngunni í Reykjavík

Sett inn:

þann

Í tilefni þess að Barnaréttindaviku frístundaheimila frístundamiðstöðvar Tjarnarinnar er nú að ljúka fara börnin 2. bekk í frístundaheimilunum Draumalandi við Austurbæjarskóla, Eldflauginni við Hlíðaskóla, Halastjörnunni við Háteigsskóla, Selinu við Melaskóla, Skýjaborgum við Vesturbæjarskóla og Undralandi við Grandaskóla í réttindagöngu á föstudaginn.

Áætlum við að um 300 börn taki þátt í göngunni að þessu sinni. Markmið réttindagöngunnar er að veita börnunum vettvang og rými í almannarýminu til þess annars vegar að fagna lögvörðum réttindum sínum og  hins vegar að minna aðra á það að börn eiga ýmis réttindi sem varin eru með lögum. Þar ber hæst lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða barnasáttmálann eins og hann er alla jafna nefndur. Barnasáttmálinn var einmitt undirritaður 20. nóvember 1989 og því er barnaréttindavikan ávallt haldin í kringum afmælisdag hans.

Eitt af megin markmiðum frístundaheimilanna er að börnin hafi val um þátttöku og viðfangsefnin í starfinu og að lýðræðisleg vinnubrögð séu í heiðri höfð. Við leggjum mikið upp úr því að hlusta eftir röddum barnanna og því að fá fram skoðanir þeirra á stórum jafnt sem smáum málefnum þannig að þarfir þeirra leggi grunninn að starfinu sem unnið er. Í réttindavikunni setjum við réttindi barna í brennidepilinn kennum þeim um réttindi barna, barnasáttmálann, lýðræðisleg vinnubrögð og að þekkja muninn á réttindum og forréttindum.

Frístundastarf er kjörinn vettvangur til að vinna með réttindi barna og barnalýðræði, en notast er við verkfæri hins óformlega náms til þess að miðla þekkingunni, m.a. í gegnum leiki og samræður.

Barnasáttmálinn fjallar um ýmis mikilvæg réttindi barna, en þeim má í grófum dráttum skipta í þrjá flokka; vernd, umönnun og þátttöku. Almennur skilningur er á því að börn eigi rétt á umhyggju og vernd, jafnt foreldra sinna sem og samfélagsins alls, enda eru vernd og umhyggja í hugum flestra tengd grunnréttindum barna órjúfanlegum böndum. Réttur barna til þátttöku og þess að tekið sé tillit til skoðana þeirra á málum er þau varða í samræmi við aldur þeirra og þroska og er hins vegar alla jafna ekki jafn mikið í umræðunni og fólki er kannski ekki jafn tamt að tengja þessi þætti grunnréttindum barna.

Með löggildingu barnasáttmálans var réttur barna til þátttöku hins vegar gerður jafnrétthár rétti þeirra til verndar og umhyggju. Á það vilja börnin benda með réttindagöngunni og er þetta verkefni liður í því að styrkja rödd barnanna og gera þau meðvituð um réttindi sín og annarra.

Gangan hefst kl. 14:45 á Skólavörðuholtinu og fer í lögreglufylgd niður Skólavörðustíginn og Bankastrætið, inn Lækjargötu framhjá Stjórnarráðinu og upp Hverfisgötu að Þjóðleikhúsinu, þar sem við fáum afnot af Þjóðleikhúskjallaranum undir sérstaka hátíðardagskrá, sjá nánar hér að neðan.

 • 14:30-14:40: Mæting á Skólavörðuholt.
 • 14:45: Gangan leggur af stað í lögreglufylgd niður Skólavörðustíg.
 • Gengið niður Skólavörðustíg/Bankastræti, til hægri út Lækjargötu, framhjá Stjórnarráðinu og upp Hverfisgötu að Þjóðleikhúsinu.
 • 15:00: Áætlaður komutími í Þjóðleikhúskjallarann
 • 15:05-15:10 Börnin boðin velkomin og farið yfir dagskrána
 • 15:10-15:15 Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpar hópinn og tekur á móti áskorun frá börnunum í öllum frístundaheimilunum.
 • 15:15-15:20 Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar  ávarpar hópinn og tekur á móti áskorun frá börnunum í öllum frístundaheimilunum..
 • 15:20/15:45 Jón Víðis töfrar alla upp úr skónum
 • 15:45/16:00 Salka Sól / Ronja syngur sig inn í hug og hjörtu allra viðstaddra
 • Boðið upp á veitingar áður en haldið er upp í rútu.
 • 16:15: Áætluð heimferð.

Athugasemndir
Lesa meira

Fréttatíminn © 2018